Verið velkomin

Vefur með sögulegum hagtölum er svar Hagstofu Íslands við óskum notenda um samfelldar tímaraðir á tölvutæku formi. Það sögulega talnaefni sem nú er tiltækt hefur verið sett í veftöflur og er birt hér á sama formi og annað talnaefni Hagstofunnar. Ráðgert er að uppfæra talnaefni um sögulegar hagtölur einu sinni á ári óháð því hvort sambærilegt efni hefur verið uppfært á aðalvef Hagstofunnar.

Tilefni

Verkefnið Sögulegar hagtölur er svar Hagstofunnar við ítrekuðum óskum notenda um að stofnunin birti með aðgengilegum hætti hagtölur sem varða Íslendinga eins langt aftur og tiltækar heimildir leyfa. Hagstofan hefur litið svo á að hún hafi í þessum efnum ákveðnum skyldum að gegna. Ýmsir starfsmenn Hagstofunnar hafa sinnt þessu meðfram öðrum verkefnum gegnum árin og birt langar tímaraðir jafnhliða birtingu hagtalna sem eru í fastari skorðum, m.a. vegna innlendra og alþjóðlegra skuldbindinga. Því kann sumum notendum að hafa þótt torvelt að átta sig á umfangi sögulegra hagtalna á vef Hagstofunnar — sem er reyndar umtalsvert — en markmiðið með verkefninu Sögulegar hagtölur er að auðvelda fólki sýn yfir þá flóru sem sögulegar hagtölur er. Hér er ekki aðeins átt við veftöflur með staðlaðri framsetningu efnis, heldur er verkefnið jafnframt hugsað sem vettvangur til að koma á framfæri öðrum upplýsingum sem geta gagnast notendum við að rekja sig áfram í leit að hagtölum og tímaröðum sem spanna lengri tímabil.

Hér verða rakin nokkur atriði sem mikilvægt er að notendur hafi í huga þegar þeir leita að talnaefni sem varðar fortíðina og hvernig þær hagtölur tengjast verkefninu Sögulegar hagtölur og þeim fyrirvörum sem nauðsynlegt er að notendur hafi í huga við hagnýtingu þeirra talna sem í boði eru.

Stutt forsaga

Árið 1997 gaf Hagstofan út 957 blaðsíðna rit ásamt geisladiski sem hét Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Viðtökurnar sem ritið fékk voru mjög góðar. Í sögulegum rannsóknum er víða litið á Hagskinnu sem undirstöðurit, því að mikið er vitnað í ritið þegar kemur að hvers kyns hagnýtingu sögulegra hagtalna, a.m.k. fram til 1990. Af öðrum útgáfum hér á landi sem hafa birt langar tímaraðir með skipulegum hætti er Tölfræðihandbók sem Hagstofan gaf þrívegis út, árið 1967, 1974 og 1984. Þá gaf Þjóðhagsstofnun út í fimm skipti ritið Sögulegt yfirlit hagtalna á árunum 1988–1998 sem einskorðaðist við mikilvægar tímaraðir um efnahagsmál eftir 1945.

Þarfir í nútíma fyrir sögulegar hagtölur

Eftir því sem lengra leið frá útgáfu Hagskinnu varð betur ljós nauðsyn þess að Hagstofan kæmi á framfæri við notendur stafrænni útgáfu af sögulegum hagtölum sem stæðust nokkurn veginn samanburð við útgáfu Hagskinnu og gott betur. Árið 2014, þegar Hagstofan fagnaði 100 ára afmæli, styrktust um leið áform hennar um að gera bragarbót í útgáfu sögulegra hagtalna á komandi árum. Opnun vefsíðunnar með sögulegum hagtölum er mikilvægur áfangi á þeirri veg­ferð að nútímavæða birtingu slíkra hagtalna eins og frekast er unnt. Því ber að líta á opnun vefgáttarinnar með sögulegum hagtölum sem þróunarverkefni og mikilvægan áfanga í áform­um Hagstofunnar um að þjóna notendum hagtalna sem best með sem ýtarlegustu talnaefni til að tengja saman nútíð og fortíð.

Það sem skilur að verkefnið Sögulegar hagtölur í stafrænni framsetningu í samanburði við útgáfu bókar á borð við Hagskinnu er að magni stafrænna upplýsinga á vefnum eru ekki settar sömu skorður og þegar bók er gefin út. Að þessu leyti víkur verklagið við Sögulegar hagtölur verulega frá útgáfu Hagskinnu sem felst í því að nú bjóðast dýpri sundurliðanir á hagtölum sem áður voru birtar í samandregnu formi. Í stað fimm og tíu ára meðaltala birtir Hagstofan nú árlegar tölur og jafnvel mánaðartölur þar sem slíkar hagtölur voru tiltækar en ekki var hægt að birta sakir plássleysis. Þar að auki hafa áður óbirt handrit og önnur gögn verið hagnýtt svo að hægt væri að birta hagtölur í dýpri sundurliðunum en áður. Í mörgum tilvikum hefur verið reynt að kanna í þaula ákveðin talnasöfn á stafrænu formi á vefnum með framtíðarvarðveislu að leiðar­ljósi. Þess vegna hefur ýmislegt talnaefni sem birtist í Hagskinnu verið leyst af hólmi með vef­töflum sem endurskoða og jafnvel sameina tvær eða fleiri áður birtar töflur í sama riti.

Sögulegar hagtölur er þróunarverkefni

Verkefnið Sögulegar hagtölur verður að skoðast sem þróunarverkefni. Ennþá bíða úrlausnar margvíslegar hagtölur sem eftir er að setja fram með aðgengilegum hætti í samhangandi tímaraðir. Ástæða er til þess að skýra frá því helsta sem torveldar framsetningu sögulegra hagtalna almennt séð.

Endurskoðun flokkunarkerfa af ýmsum toga er mikil áskorun fyrir hvern þann sem vill tengja saman tölulegar upplýsingar sem byggjast á ólíkum flokkunarkerfum. Oft má líta á það sem fræðilega áskorun að gera slíkt þegar kemur að því að samræma hagtölur eftir því sem flokkunar­kerfunum fjölgar.

Til að auka skilning og traust á niðurstöðum sem byggjast á löngum tímaröðum skapast nauðsyn fyrir greinargerðir um hagtölurnar, tilurð þeirra og uppruna, hvort sem tölurnar megi rekja til hagskýrslugerðar eða hvort talnanna var upphaflega aflað í öðrum tilgangi. Hér kemur að mikilvægum fyrirvara sem tengist flestum sögulegum hagtölum, en það er sú staðreynd að í mörgum tilvikum eru langar tímaraðir, sögulegar hagtölur, afurð fræðilegrar vinnu sem ýmist er leyst af hendi utan opinberra hagskýrslustofnana eða innan. Leitast er við að birta tímaraðirnar með nauðsynlegum skýringum og upplýsingum sem hafa að markmiði að notandi þessara sögu­talna hafi sem ljósasta mynd af því á hvaða forsendum tölurnar hvíla og í hverju veikleikar talna­gerðarinnar eru fólgnir hverju sinni. Þessar greinargerðir sem ætlað er að fylgi sögulegum hagtölum eru gjarnan kallaðar „lýsigögn“ eða „vörulýsingar“ sem eru íslenskun á enska hug­takinu „metadata“; í bókstaflegum skilningi „gögn um gögn“.

Hagstofan stefnir að því að með sérhverri tímaröð fylgi lýsigögn þegar fram líða stundir en vera kann að í byrjun skorti bæði lýsingar sem slíkar og að jafnframt skorti samræmingu í fram­setningu lýsigagnanna.

Aðgengileiki sögulegra hagtalna er forgangsmál

Stundum koma fram athugasemdir frá notendum um að erfitt sé að skilja hagtölur og að vafi leiki á því hvernig megi skilja þær þegar notandanum er látið eftir að raða ýmsum talnabrotum saman. Þetta á t.d. við um verðmætistölur í gömlum krónum sem giltu til ársloka 1980 og hafa víða verið umreiknaðar í nýkrónur sem tóku gildi 1. janúar 1981. Víða í yfirlitstöflum hafa gamlar krónur verið umreiknaðar í nýkrónur í þeim eina tilgangi að bæta yfirsýn notandans og flýta fyrir gerð myndrita. Í öðrum töflum er báðum mynteiningum haldið til haga.

Á ýmsum stöðum í talnagerð þessari kemur fyrir að tölur eru áætlaðar eða að þeim er varpað úr einni einingu í aðra. Oftast er það gert út frá rökstuddri ályktun, gjarnan öðrum heimildum, en ekki út frá getgátum einum. Sem dæmi má benda á töflugerð sem sýnir atvinnugreina­skiptingu vinnuaflsins yfir marga áratugi þar sem á tímabili tíðkaðist að mæla vinnumagnið í ársverkum en á öðrum tímabilum í fjölda einstaklinga. Hér verður að skoða viljann fyrir verkið og lesa um leið skýringarnar sem fylgja töflunni.

Einnig eru athugasemdir frá notendum vel þegnar um það sem betur mætti fara hér á þessum vefsíðum.